Hópastarf Furuholts

Fréttir frá liðinni viku 20. maí 2016

Nóg hefur verið að gerat hjá okkur þessa viku líkt og aðra daga þó svo að vikan hafi verið í styttri kantinum.  Við höfum verið duglega að vera úti en einnig verið í leik inni.  Á þriðjudaginn var fámennt en góðmennt hjá okkur þar sem leikskólinn opnaði ekki fyrr en kl. 12 og ákváðu þónokkrir að lengja helgarfríið sitt. Á miðvikudaginn vorum við rosalega dugleg og fluttum moltu úr moltutunnunum okkar yfir á kartöflugarðinn sem við ætlum að setja niður í kartöflur í næstu viku (sjá myndir á myndasíðu).  Við vorum svo í rólegheitunum í vali eftir hádegi.  Á fimmtudaginn vorum við í leik inni og útiveru fyrir hádegi og svo vali og útiveru eftir hádegi.  Í dag voru svo Olympíuleikarnir okkar, börnin sýndu mikla hæfileika, krafta, snerpu og þol í þrautum og keppnum sem voru.  Allir skemmtu sér vel og fengu svo verðlaunapening að leikunum loknum.  Við lékum okkur svo í garðinum við Efra Pálmholt fram að mat (sjá myndir á myndasíðu).

Sundhópur 22. desember 2015

Áfram heldur starfið hjá okkur og hefur síðastliðinn mánuður helgast jólaundirbúningnum.  Börnin bjuggu til skemmtilega jólagjöf handa foreldrum sínum, auk þess sem þau bjuggu sjálf til merkimiðana og jólapappírinn, allt tók þetta tíma en var skemmtileg vinna.  Við höfum líka verið að föndra aðeins fyrir jólin og hefur sá afrakstur fengið að fara strax heim, við fórum í kakóferð á Bautann og fengum kakó og kleinu en einnig var kakóferð hjá okkur í Holtið okkar þar sem foreldrum var boðið að koma og fá sér kakósopa með okkur.  Við höfum verið að leggja inn stafina I-i, Í-í, J-j og K-k síðustu vikurnar og læra vísur sem tengjast þessum stöfum.  Alla daga erum við að syngja jólalögin og æfa okkur í dönsum sem tengjast þeim og að sjálfsögðu var hápunktur jólaundirbúningsins föstudaginn 11. desember þegar Litlu Jólin okkar voru.  Þá svo að það hafi verið nóg að gera þá höfum við reynt að halda okkar skipulagi, fara í hópastarfið okkar og leika okkur úti og inni.

Fleira er ekki að frétta af snillingunum í hópnum að þessu sinni

Jólakveðjur Kristjana

Sundhópur 24. nóvember 2015

Það er sífellt nóg að gera hjá okkur í Sundhópnum, við höfum haldið áfram að vinna með bæinn okkar Akureyri síðustu vikurnar og tekið fyrir Akureyrarkirkju.  Í síðustu viku fórum við í algjöra hetjuferð í Akureyrarkirkju þar sem við ætluðum að ganga niðureftir en vegna snjókomu og vinds hérna uppfrá ákváðum við að taka strætó því það hlyti að vera betra veður niðri í bæ en því miður var svo ekki, en við létum veðrið ekki stoppa okkar heldur skoðuðum kirkjuna, töldum gluggana og skoðuðum myndirnar í gluggunum, fylgdumst með þegar klukkan sló og síðast en ekki síst þá töldum við hvað voru margar kirkjutröppurnar eru.  Við fórum svo í strætó heim og skoðuðum jólaljós sem komin eru upp.  Við höldum áfram að vinna með Akureyrarkirkju og umhverfi hennar auk þess sem við erum farin að huga að jólagjöfum og jólaföndri. Við erum að æfa okkur í að merkja verk okkar með nafni og skiptast á í spilum og taka tillit til annarra þegar við erum að lesa og segja frá, oft liggur mörgum margt á hjarta og þá er erfitt að bíða eftir að röðin komi að okkur en við erum að reyna að passa að tala ekki frammí fyrir aðra.

Fleiri fréttir síðar  Kristjana og Olla

Sundhópur 3. nóvember 2015

Börnin voru spennt í síðustu viku að fá loksins snjóinn en ekki alveg eins sátt þegar þurfti að fara að klæða sig meira er við vorum að fara út, það gafst góður tími hjá okkur í forstofunni að ræða hvað við þyrftum að klæða okkur í og hvers vegna.  Tíminn í forstofunni gengur orðið mjög vel en þessa viku erum við einmitt að læra og rifja upp reglurnar sem gilda í forstofunni en það eru reglurnar:  Að fara eftir fyrirmælum.  Að nota inniröddina.  Að hafa hendur og fætur hjá sér.  Vera á sínu svæði og Ganga frá fötununum sínum.  Við munum gefa okkur alveg extra langan tíma þessa viku í forstofunni til að rifja upp og æfa okkur í reglunum.

Á miðvikudaginn í síðustu viku þá fórum við í listasmiðjuna, við byrjuðum á að lesa um stafinn Éé í bókinni um hann Gralla Gorm og svo lærðum við vísu um stafinn.  Svo fórum við í umræður um Mjólkursamlagið og hvað sé búið til þar og notuðum við dósirnar sem við fengum frá ykkur til þess.  Hvert barn fékk svo 3 dósir til að skreyta og ætlum við að búa okkur til óróa úr því, sláum margar flugur í einu höggi en við notum mikið efnivið sem annars myndi enda í ruslinu s.s. kassa, dósir, krukkur og fleira til að föndra úr í listasmiðjunni.  Við munum síðan halda áfram með óróann okkar í þessarri viku.

Á fimmtudaginn fórum við í vettvangsferð í Bókasafnið þar sem við fórum í sögustund hjá Bókasafnsbangsanum, fengum svo að kynnast verki sem verið er að vinna í bókasafninu sem heitir Nála.  Börnin stóðu sig rosalega vel í að ganga niður að bókasafni og voru til fyrirmyndar á leiðinni heim í strætóinum.

Í gær mánudag fengum við vinahóp okkar af Birkiholti í heimsókn, einu sinni í mánuði munum við hitta vinahópinn okkar og gera eitthvað skemmtilegt með þeim.  Í þessum fyrsta vinahitting buðum við þeim til okkar, við fórum með fyrir þau vísuna Nautamál á nýjársnótt og svo kynntum við okkur fyrir þeim og þau fyrir okkur.  Við sungum svo saman 2 lög áður en við buðum þeim að koma í leik í kubbum, búningum og bílum.  Áður en vinir okkar fóru svo á sína deild lásum við fyrir þau söguna okkar um hana Búkollu sem við sömdum.  Þessi vinahittingur gekk mjög vel og hlökkum við til að gera fleira skemmtilegt með þeim.

Í dag þriðjudag var Stig af stigi hjá okkur en þá vorum við vinna með innlifunina EKKI NÚNA…..SEINNA.    Að það þyki ekki endilega öllum það sama gott, það er margt sem okkur finnst gaman að gera stundum en leiðinlegt að gera alltaf.  Við reynum að tengja það við reynsluheim barnanna eins og t.d. Vilhjálmur vill ekki leika sér með þér núna en kannski vill hann það seinna.  Vilhjálmur vill stundum vera einn en ekki alltaf Og gott er að spyrja börnin sjálf hvort að þau hafi notað eða heyrt orðin: Núna…..seinna eða stundum…….alltaf þegar rifjaður er upp dagurinn.

Endilega skoðið myndasíðuna okkar.

Bestu kveðjur Kristjana og Olla

Sundhópur 27. október

Áfram heldur starfið hjá okkur en sífellt bætast við fleiri og fleiri verkefni sem gaman er að vinna með snillingunum í hópnum.

Á þriðjudaginn síðastliðinn fór hópurinn í Stig af stigi þar sem við ræddum um að tilfinningar geta breyst t.d. að það sem við höfðum einu sinni verið hrædd við erum við ekki hrædd við lengur og svo öfugt og að margt breytist þegar við reynum eitthvað eða kynnumst einhverju.  Að því loknu fórum við í tónlist þar sem við hlustuðum á lagið með honum Ladda um Búkollu og sungum og dönsuðum með, auk þess að syngja lag og fara með vísu mánaðarins.

Á miðvikudag nýttum við hópastarfið til útiveru, við skoðuðum tréin í garðinum og ræddum um hvernig þau hafa breyst frá því í sumar, við horfðum á fjöllin sem við sjáum úr leikskólagarðinum og fræddust um hvað þau heita og upp frá því spunnust miklar umræður og sögur um skíðaferðir.  Að útiveru lokinni fórum við saman inn og lögðum á borð fyrir hádegismat og vorum við þá að æfa okkur að telja, vinna saman og taka eftir þvi sem var verið að segja.  Reglulega fer ég með hópinn og við leggjum á borð og er þá verið að vinna með tölur og talningu, hægri og vinstri, tillitsemi og kurteisi við að ná í það sem okkur vantar í eldhúsið.

Á fimmtudaginn fórum við í hreyfistund í salnum, í þetta skiptið breyttum við aðeins út af vananum og nú vorum við að læra leiki og  dansa í salnum.  Við fórum leik sem heitir Ungarnir og refurinn, en þar áttu börnin að læra þulu til að fara með áður en þau hlupu yfir salinn og pössuðu sig á að refurinn myndi ekki ná þeim, gekk þetta vonum framar og voru þau fljót að ná leiknum.  Næst fórum við í skottleik þar sem allir byrjuðu með skott en ef einhver náði skottinu af manni átti maður að setjast niður og í lok leiksins stóð upp einn sigurvegari sem var búinn að ná skottunum af öllum hinum.  Svo fórum við svo í Íþróttaálfaásadans en þá vorum við að dansa við tónlist og þegar tónlistin stoppaði þá hlupum við á dýnu sem var merkt ákveðinni spilategund og ef sú tegund var dregin þá áttu börnin þar að gera ákveðnar íþróttaálfaaæfingar áður en byrjað var aftur að dansa.  Í lok tímans voru svo slökun og teygjur.

Í gær mánudag teiknuðum við myndir við söguna okkar um hana Búkollu en hvert barn fær sína eigin bók með sögunni í.  Börnin voru misáhugasöm og gekk þetta nokkuð vel, þegar við verðum búin að myndskreyta söguna munu börnin fara með bókina heim og vonandi búin að læra söguna svo vel að þau geti sagt ykkur hana.

Við höldum áfam með hópastarfið óbreytt á næstunni

Bestu kveðjur Kristjana og Olla

 

Sundhópur 20. október

Snillingarnir í Sundhópnum standa sig svo sannarlega vel.  Síðastliðinn fimmtudag gengum við niður í Lystigarð og skoðuðum okkur um, við skoðuðum blóm og tré sem okkur fundust áhugaverð, við lögðumst í grasið og skoðuðum skýjamyndir, við skoðuðum vatnslausan gosbrunninn og margir tjáðu sig um hvað það væri gaman að sulla í honum.  Við þrömmuðum yfir brúna, „veiddum“ með stráum og fengum að skoða gróðurhúsið.  Við héldum svo heim aftur með strætó.  Myndir úr Lystigarðinum má finna hér.

Í gær mánudag héldum við í aðra göngu en þá fórum við að heimsækja hana Auðhumlu upp við Mjólkursamlag og skoðuðum umhverfið þar í kring.  Við æfðum okkur í að fara eftir umferðarreglunum við að ganga yfir götur bæði þar sem voru gangbrautir og ekki.  Við skoðuðum styttuna af Auðhumlu mjög vel og ræddum um hvað væri búið til úr mjólkinni, við sáum mjólkurbíl og kerru fer aftaní mjólkurbílinn auk þess sem við sáum stóran ostbita sem gaman var að skoða.  Á heimleiðinni sungum við um kýrnar og  hittum við Hrefnu sem var áður kennari á Flúðum og hún gaf okkur fuglanammi til að hengja í tré.  Myndir úr ferðinni okkar má sjá hér.  Þegar heim var komið ræddum við um það sem við sáum í ferðinni, ég sagði þeim söguna um hana Búkollu og þau bjuggu saman til skemmtilega sögu um kú, en ég mun senda ykkur söguna síðar.

Bestu kveðjur Kristjana

Sundhópur 13. október

Þessa vikuna liggur hópastarfið hjá okkur niðri vegna Hljom2 prófana.

Í listasmiðju s.l. miðvikudag máluðum við haustlitamynd með vatnslitum, ýmsar myndir þróuðust út í allt annað en það er í góðu lagi.  Þegar búið var að mála þá fórum við að leika okkur með dýr og plúskubba og skemmtu allir sér hið besta.  Á fimmtudaginn var hreyfistund í sal, þá byrjuðum við á upphitun þar sem við teygðum okkur, hristum líkamann og komum hita í okkuar áður en við fórum í þrautabraut sem reyndi á þol, úthald og hugrekki en mikið var um klifur og jafnvægisæfingar að þessu sinni.  Í lok tímans var slökun þar sem við teygjum á vöðvum og slökum á líkamanum, við leggjum áherslu á að börnin reyni við allar þrautir með okkar hjálp og var gaman að fylgjast með hversu fljót þau voru að öðlast öryggi í brautinni.

Bestu kveðjur Kristjana og Olla

Dýrahópur 7. október

Þá er komin tími á að setja inn fyrstu fréttir af Dýrahóp. Nú höfum við farið í nokkra hópastarfstíma og er að komast ágætt skipulag á það. Í upphafi þurfti að finna nafn á flotta hópinn okkar og komu fram margar skemmtilegar tillögur en að endingu var kosið og stóð þá Dýrahópur upp úr með flest atkvæði.

Í vetur mun svo Dýrahópurinn skoða landið okkar Ísland betur auk þess sem við munum teygja okkur eitthvað út í Norðurlöndin. Krakkarnir eru búnir að vera mjög áhugasamir um fána heims og því ætlum við að skoða það sérstaklega.

Á þriðjudögum hjá okkur förum við svo alltaf í lesleik og notumst þá við bókina Lubbi finnur málbein. Fyrst tókum við bara fyrir einn staf, Aa, og eftir að hafa lesið um hann, fundið orð sem byrja á honum og fundið hljóðið hans fórum við í að skrifa hann í skriftabókina okkar. Það gekk líka svona glimmrandi vel enda miklir snillingar hér á ferð þannig að við tókum tvo stafi fyrir síðast Bb og Mm og stóðu krakkarnir sig heldur betur vel. Einnig erum við búin að æfa okkur í að skrifa Nn og Dd

Síðasta miðvikudag var Dýrahópur svo í listasmiðjunni og gerðum við þá haustmyndina okkar. Á myndasíðu deildarinnar má sjá myndir frá þeirri vinnu.

Við höfum líka verið dugleg að skella okkur út að leika einhvern hluta af hópastarfinu þar sem viðrað hefur ágætlega til útiveru, milt og gott veður þó svo að það hafi verið dálítið blautt.

Nú þegar allt fer að komast í fastar skorður þá fara að koma fréttir hér reglulega af því sem við erum að bralla saman. Hér er á ferðinni virkilega flottur hópur sem ég held að komi til með að eiga margar góðar og skemmtilegar stundir saman í vetur.

Kærar kveðjur,

Fríða Rún og Linda

 

 

Sundhópur 6. október

Tíminn flýgur áfram hjá okkur enda skemmtum við okkur vel saman.  Í hópastarfi síðustu daga höfum við haldið áfram að tala um og vinna með haustið og bæinn okkar.

Miðvikudaginn 30. september byrjuðum við á því að fara út í hópastarfstímanum okkar, skoða umhverfi leikskólans og himinininn en við vorum svo heppin að það var fallegur regnbogi á himninum, við reyndum að telja hvað það væru margir litir í regnboganum og voru þau ekki sammála um hvaða litir væru og hvað þeir væru margir, en upp frá því spunnust umræður um það hvað við sæjum, við sæjum mismunandi hluti og liti.  Þegar inn var komið fórum við í leik inni auk þess sem við æfðum okkur að syngja lagið um haustið, klappa atkvæðin í nöfnunum okkar, skrifa nöfnin okkar, telja hvað við eigum marga stafi og enduðum tímann á að syngja saman lagið um stafinn B-b.

Fimmtudaginn 1. október var hreyfistundardagur hjá okkur, við skelltum okkur í göngutúr í rokinu og rigningunni á rólóvöllinn við Hrísalund, börnin skemmtu sér hið besta og voru ekki alveg tilbúin í að halda heim á leið en við fórum svo upp á göngustíginn fyrir ofan Lundina og gengum þá leið heim.  Myndir úr af okkur og hinum Stjörnunum í gönguferðinni má sjá hér 

Mánudaginn 5. október tókum við á móti Einari Þór en hann er að byrja á leikskólanum okkar og verður með okkur í Sundhópnum.  Við bjóðum hann og fjölskyldu hans velkomin í leikskólann og hópinn okkar.  Við lékum okkur fyrst inni á deild en fórum svo út að leika saman.

Þriðjudaginn 6. október vorum við í Stig af Stigi þar sem við héldum áfram að skoða myndir, tala um tilfinningarnar sem við sæjum og æfa okkur að setja sjálf upp svip sem lýsti líðaninni.  Í tónlistinni æfðum við okkur að syngja lagið um það sem er bannað og hlustuðum á Búkollulagið með Ladda.

Kveðja Kristjana og Olla

 

Sundhópur 29. september

Það hefur verið nóg að gera hjá okkur í Sundhópnum síðastliðna viku, á miðvikudaginn s.l. vorum við í leik og starfi á deildinni okkar, við skiptum okkur í tvo minni hópa þar sem annar hópurinn fór í búningaleik í Stjörnuherberginu meðan hinir spiluðu Trúðaspil og svo var skipt.  Trúðaspilið gengur út á að púsla saman trúðnum sínum með því að kasta tening og finna parta trúðsins sem eru með sömu tölu og kom upp á teningnum, þetta spil reynir á einbeitingu, athygli, úthald, þolinmæði, samvinnu og að skiptast á.  Gekk spilið mjög vel hjá báðum hópum og voru þau mjög spennt yfir því hvaða tölur þau og aðrir fengu.  Búningarnir vöktu mikla lukku og skemmtilegt hvernig leikurinn þróaðist hjá þeim þar sem bæði voru hættuleg dýr á ferð, lítil börn, ofurhetjur, mömmur og pabbar.

Mánudaginn 28. sept vorum við í hópastarfinu okkar í listasmiðjunni þar sem við unnum að því að búa okkur til hausttré en við ætlum að búa okkur til 4 tré núna í vetur/vor sem sýna hvernig tréin breytast eftir árstíðunum.  Við byrjuðum á því að blanda brúnan lit til að mála stofninn  með en hálfbrösuglega gekk hjá okkur að fá brúnan lit og að endingu sögðu þau við mig hvort að ég gæti ekki bara notað brúna litinn sem væri í hillunni (ekki lengi að finna ráð við vandamálunum).  Öll börnin máluðu svo stofna trésins á blað en umræður spunnust um það hvers vegna einhverjir væru að gera öðruvísi en aðrir en það væri allt í lagi þar sem tré væru mismunandi og við sæjum tré á mismunandi hátt.  Skemmtilegar umræður sem þróuðust út í umræður um hverjir hefðu séð geimverur, skrímsli, apa, flóðhesta og krókódíla.  Við ræddum svo um haustlitina, hvaða liti við sæjum úti þegar við horfðum á tréin, runnana, grasið og allan annan gróður, svo var einnig rætt um hvers vegna laufblöðin dyttu af trjánum og fannst þeim sennilegasta skýringin á því vera að það væri búinn að vera svo mikill vindur að hann væri búinn að blása öllum laufblöðunum af.  Við límdum síðan bæði nýtínd og þurrkuð laufblöð á tréin okkar og gátu börnin því valið um hvort að tréin þeirra væru enn með græn laufblöð, laufblöð í haustlitum eða blandað.  Meðan við biðjum eftir að myndirnar okkar þornuðu þá púsluðum við og ræddum saman auk þess að æfa okkur að syngja vísuna um stafinn B.  Myndir úr listasmiðjunni má sjá hér

Í Stig af stigi þessa viku erum við að halda áfram með að tala um tilfinningarnar okkar, skoða svipbrigði barna og endurspegla þau.  Þegar Stig af stigi lauk þá fórum við í tónlist, þar sem við sungum lagið um stafinn B og lásum um hann í Grallir Gormur og stafaseiðurinn.  Við rifjuðum síðan upp hvernig við spilum og göngum um hljóðfærin; Tónstafir og trommur, hlustuðum á lagið „Ég sé Akureyri“ og spiluðum undir á hljoðfærin okkar.

Myndir úr starfinu okkar koma inn seinna

Kveðjur Kristjana og Olla

 

Fréttir frá Sundhópi 22. september

Nú er allt að falla í fastar skorður hjá okkur í Sundhópnum.  Hópastarfstíminn síðastliðinn miðvikudag féll niður vegna kartöfluupptektar í Gleðigarðinum okkar.  Á fimmtudaginn fórum við í vettvangsferð, byrjuðum á að fara í Gleðigarðinn og taka upp síðustu kartöflurnar, börnin voru mjög áhugasöm og tíndu jafnvel upp allra smæstu kartöflurnar.  Við héldum svo áfram för okkar þar sem við fórum í ævintýraferð um Holtið okkar, skoðuðum tréin og gróðurinn sem þar er að finna, tíndum köngla, ræddum um hvernig við gætum gengið vel um umhverfið okkar og tíndum það rusl sem á vegi okkar  varð.

Í hópastarfinu í gær, mánudag fórum við að vinna á Birkiholti en í vetur munum við fara reglulega í hópastarfstímunum og vinna á öðrum deildum leikskólan, við byrjuðum hópastarfstímann á að kynna okkur og telja hve margir væru mættir í hópinn en það var full mæting þennan daginn sem er alveg frábært.  Ég lagði svo inn stafi  vikunnar en það eru stafirnir A og Á, við reyndum að búa þá til með fingrunum okkar og lærðum lög um stafina auk þess sem við lásum um þá í bókinni Gralli gormur og stafaseiðurinn mikli.

Í dag þriðjudag fór hópurinn með Ollu í stig af stigi þar sem þau fóru yfir reglurnar sem þau settu sér í síðasta tíma, ræddu tilfinningar og skoðuðu myndir.  Síðan var tónlistartími þar sem Olla kynnti fyrir þeim tónstafi og trommur, rætt var um hvernig við spilum á hljóðfærin, hvernig við göngum um þau og svo var æft sig að spila og syngja þar til við héldum út að leika í góða veðrið.

Kveðjur Kristjana og Olla