I – N

I

Indjánalagið

Einn lítill, tveir litlir, þrír litlir indíánar,
fjórir litlir fimm litlir, sex litlir indíánar.
Sjö litlir, átta litlir, níu litlir indíánar,
tíu litlir indíánar í skóginum.

Allir voru með byssu og boga,
allir voru með byssu og boga,
Allir voru svo kátir og glaðir!
Þeir ætluðu að fella björninn.

Uss! Þarna heyrðist eitthvað braka.
Uss! Þarna heyrðist fugl að kvaka.
Fram kom stóri og grimmi björninn!
Þá hlupu þeir allir heim til sín.

Þá hlupu:
Einn lítill, tveir litlir, þrír litlir indíánar,
fjórir litlir, fimm litlir, sex litlir indíánar.
Sjö litlir, átta litlir, níu litlir indíánar-
en einn indíáni varð eftir.

Hann var ekki hræddur við stóra björninn.
BAMM!! – hann skaut og hitti björninn.
Tók svo af honum allan haminn
og hélt síðan heim til sín.

Þá komu:
Einn lítill, tveir litlir, þrír litlir indíánar,
fjórir litlir fimm litlir, sex litlir indíánar.
Sjö litlir, átta litlir, níu litlir indíánar-
allir að skoða björninn.

Í leikskóla er gaman

Í leikskóla er gaman,
þar leika allir saman.
Leika úti og inni
og allir eru með.

Hnoða leir og lita,
þið ættuð bara að vita
hvað allir eru duglegir
í leikskólanum hér

Í

Í skóginum

Í skóginum stóð kofi einn,
sat við gluggann jólasveinn.
Þá kom lítið héraskinn,
sem vildi komast inn.
Jólasveinn ég treysti´ á þig,
veiðimaður skýtur mig.
Komdu litla héraskinn.
því ég er vinur þinn.
En veiðimaður kofann fann,
Jólasveinninn spurði hann;
„Hefur þú séð héraskinn
hlaupa um hagann þinn ? “
„Hér er ekki héraskott.
Hafa skaltu þig á brott.“
Veiðimaður burtu gekk,
og engan héra fékk.

J

Jólahjól

Undir jóla hjóla tré
er pakki
Undir jóla hjóla tré
er voðalega stór pakki
í silfurpappír
og mamma og pabbi glotta í laumi í kampinn

Skild’a vera jólahjól
Skild’etta vera jólahjól
Skild’a vera jólahjól
Skild’etta vera jólahjól

Úti í jólahjólabæ slær klukka
úti í jólahjólabæ hringir jólahjólaklukkan jólin inn
Ég mæni útum grá glugga
og jólasveinninn glottir bakvið ský
út í bæði

Skild’a vera jólahjól
Skild’etta vera jólahjól
Skild’a vera jólahjól
Skild’etta vera jólahjól

Mamma og pabbi
þegja og vilja ekkert segja

Skild’a vera jólahjól
Vona að þetta sé nú jólahjól
Að þetta sé nú jólahjól
óóóójeeeee

Undir jóla hjóla tré
er pakki
Undir jóla hjóla tré
er voðalega stór pakki
í silfurpappír
og mamma og pabbi glotta í laumi í kampinn
út í bæði.

Skild’a vera jólahjól
Skild’etta vera jólahjól
Skild’a vera jólahjól
Skild’etta vera jólahjól

skildetta vera hjólajól?
ætli það sé mótorhjól

Sniglabandið

Jólasveinar einn og átta

Jólasveinar einn og átta
ofan kom´af fjöllunum.
Í fyrrakvöldi þeir fór’ að hátta,
fund´´ann Jón á völlunum.

Andrés stóð þar utan gátta,
ætluðu að færa hann tröllunum.
Þá var hringt í Hólakirkju,
öllum jólabjöllunum

Jólasveinar ganga um gólf

Jólasveinar ganga um gólf
Með gildann staf í hefndi.
Móðir þeirra sópar gólf
Og flengir þá með vendi.
:,: Upp á stól
Stendur mín kanna.
Níu nóttum fyrir jól
Þá kem ég til manna:,:

K

Kisa fer til London

Kisa mín, kisa mín,
hvaðan ber þig að?
Og ég kem nú frá London,
þeim mikla´og fræga stað.

Kisa mín, kisa mín,
hvað gerðirðu þar?
Og ég var að veiða mýsnar
í höllu drottningar.

Kolakassinn

Siggi datt o´ní kolakassann,
hæ-fadderí,fadderall, la la.
Gunna átti hann að passa,
hæ-fadderí, fadderall, la, la.
Ef að Lúlli vissi það,
þá yrði Jóna steinhissa.
Hæ-fadderí, hæ-faddera,
hæ-fadderí, fadderall, la,la.

Krakkar mínir komið þið sæl

Krakkar mínir komið þið sæl,
hvað er nú á seyði?
Áðan heyrði ég eitthvert væl
upp á miðja heiði.

Sjáið þið karlinn, sem kemur þarna inn,
kannske það sé blessaður jólasveinninn minn.

Ég hef annars sjaldan séð
svona marga krakka.
Eitthvað kannske er ég með,
sem ekki er vont að smakka.

Blessaður karlinn, já komdu hérna inn,
hvað er þarna í pokanum jólasveinninn minn.

Það fáið þið seinna að sjá,
svona, engin læti!
Ég er kominn fjöllum frá,
og fæ mér bara sæti.

Segðu okkur góði, hvað sástu í þinni ferð?
Seinna máttu gef okkur dáldinn jólaverð.

Eitthvað gaman gæti ég sagt,
og geri það líka feginn.
Ég hef mikið á mig lagt
ykkar vegna greyin.

Segðu okkur góði, hvað sástu í þinni ferð?
Seinna máttu gefa okkur dáldinn jólaverð.

Um minn bústað enginn veit,
utan vetrarsólin.
En ég þramma o´ní sveit
alltaf fyrir jólin.

Segðu okkur góði, hvað sástu í þinni ferð?
Seinna máttu gefa okkur dáldinn jólaverð.

Víða kem ég við á bæ,
varla er ég setztur
fyrr en börnin hrópa: „Hæ
hér er jólagestur“.

Velkominn sértu, og segðu okkur nú fljótt,
sástu ekki álfa og huldufólk í nótt?

Enga sá ég álfaþjóð,
enda var það bótin.
Álfar birtast, börnin góð,
bara um áramótin.

Ja, þú ert skrítinn og skemmtilegur karl,
skeggið þitt er úfið og bústaðurinn fjall.

Þegar ég kom í þessa borg,
það voru mikil læti.
Vagnarnir með óp og org
æða hér um stræti.

Þú ert úr fjöllunum, það er líka satt.
Þetta eru bílar, sem aka svona hratt.

Eitt er það sem mig undrar mest,
að þau farartæki,
skyldu ekki hafa hest
og hund, sem eftir ræki.

Aumingja karlinn, þú kannt þetta ekki vel.
Kerran heitir bifreið og gengur fyrir vél.

Það má leika á gamlan gest,
sem galdra þekkir lítið.
Enda líka finnst mér flest
furðulegt og skrítið.

Þú ert úr fjöllunum, það er svo sem von.
Þú munt heita Pottsleikir Leppalúðason.

Svo er það. – En segðu mér,
Siggi eða Gvendur,
til hvers þetta áhald er,
sem okkar á milli stendur.

Þetta er nú tækið, sem tala verður í
til þess að það heyrist um sveit og víðan bý.

Ef ég væri gömul geit
gætuð þið svona hjalað,
að það heyrist upp í sveit
allt, sem hér er talað!

Þér finnst það skrítið, en svona er það nú samt.
Syngdu bara meira, það heyrist langt og skammt.

Er það satt að okkar tal
eignist vængi slíka?
fljúgi yfir fjöll og dal,
og fram á sjóinn líka.

Þér finnst það skrítið, en svona er það nú samt.
Syngdu bara meira, það heyrist langt og skammt.

Heyrið börnin heil og sæl,
hausinn minn er þröngur.
Þetta, sem mér virtist væl,
var þá krakkasöngur?

Auðvitað góði, það vorum bara við –
við, sem hérna stöndum, að syngja í útvarpið.

Þorsteinn Ö. Stephensen

Krummavísur

Krummi svaf í klettagjá,
kaldri vetrarnóttu á
:,: verður margt að meini:,:
Fyrr en dagur fagur rann
freðið nefið dregur hann
:,: undan stórum steini:,:

Krummi krunkar úti

Krummi krunkar úti
kallar á nafna sinn.
Ég fann höfuð af hrúti,
hrygg og gæruskinn.
:,: Komdu nú og kroppaðu með mér
krummi nafni minn :,:
Allt er frosið úti gor,
ekkert fæst við ströndu mor.
:,: svengd er metti mína :,:
Ef að húsum heim ég fer
heimafrakkur bannar mér
:,: seppi úr sorpi að tína :,:

Krummi svaf í klettagjá

Krummi svaf í klettagjá,
kaldri vetrarnóttu á
:,:Verður margt að meini,:,:
fyrr en dagur fagur rann
freðið nefið dregur hann
:,:undan stórum steini.:,:

„Allt er frosið úti gor,
ekkert fæst við ströndu mor
:,:svengd er metti mína.:,:
Ef að húsum heim ég fer
heimafrakkur bannar mér
:,:seppi´ úr sorpi að tína:,:

Á sér krummi ýfði stél,
einnig brýndi gogginn vel,
:,:flaug úr fjallagjótum:,:
Lítur yfir byggð og bú,
á bæjum fyrr en vakna hjú,
:,:veifar vængjum skjótum:,:

Sálaður á síðu lá
sauður feitur garði hjá
:,:fyrrum frár á velli:,:
„Krunk, krunk! nafnar, komið hér,
krunk, krunk! því oss búin er
:,:krás á köldu svelli.“:,:

Kubbahús

Kubbahús við byggjum brátt,
báðum lófum, smellum hátt.
Kubbum röðum, sitt á hvað
(hvíslað) – Hver vill skemma það?

L

Lagið um það sem er bannað

Það má ekki pissa bak við hurð
og ekki henda grjóti oní skurð
ekki fara í bæinn og kaupa popp og tyggjó
ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó.

Það má ekki vaða út í sjó
og ekki fylla húfuna af snjó
ekki tína blómin sem eru úti í beði
ekki segja ráddi heldur réði.

Þetta fullorðna fólk er svo skrýtið,
það er alltaf að skamma mann,
þó maður geri ekki neitt,
það er alltaf að skamma mann.

Það má ekki skoða lítinn kall
og ekki gefa ketti drullumall
ekki skjóta pabba með byssunni frá ömmu
ekki tína orma handa mömmu.

Það má ekki hjóla útí búð
og ekki gefa litla bróður snúð
ekki fara að hlæja ef einhver er að detta
ekki gera hitt og ekki þetta.

Litalagið

Gulur, rauður, grænn og blár,
svartur, hvítur, fjólublár.
Brúnn, bleikur banani,
appelsína talandi.
Gulur, rauður, grænn og blár,
svartur, hvítur, fjólublár

Litlu börnin leika sér

Litlu börnin leika sér, liggja mónum í,
þau liggja þar í skorningum og hlæja, hí, hí, hí,
þau úða berjum upp í sig og alltaf tína meir,
þau elska berin bláu og brauðið með.
Í berjamó er gaman, börnin leika saman,
börnin tína í bolla og brosa við.
Sólin litar hólinn, heiðbláan kjólinn,
um jörðu hrærast því ljúft er geð.
Þjóðvísa

Litirnir

Grænt, grænt, grænt
er grasið út í haga.
Grænt, grænt, grænt
er gamla pilsið mitt.
Allt sem er grænt, grænt,
finnst mér vera fallegt
fyrir vin minn, litla Jón á Grund.
Gul, gul, gul
er góða appelsínan.
Gul, gul, gul
er gamla húfan mín.
Allt sem er gult, gult
finnst mér vera fallegt
fyrir vin minn, litla Kínverjan

Rauð, rauð, rauð
er rósin hennar mömmu.
Rauð, rauð, rauð
er rjóða kinnin mín.
Allt sem er rautt, rautt
finnst mér vera fallegt
fyrir vin minn, litla indjánann.

Svart, svart, svart
er sjalið hennar frænku.
Svart, svart, svart
er litla lambið mitt.
Allt sem er svart, svart
finnst mér vera fallegt
fyrir vin minn, litla svertingjann.

Blátt, blátt, blátt
er hafið bláa hafið.
Blár, blár, blár
er blái himinninn.
Allt sem er blátt, blátt
finnst mér vera fallegt
fyrir vin minn, litla sjómanninn.

Hvít, hvít, hvít
er hvíta snjókerlinginn.
Hvít, hvít, hvít
eru skýin sem ég sé.
Allt sem er hvítt, hvítt
finnst mér vera fallegt
fyrir vin minn, litla snjókarlinn.

Lína langsokkur

Hér skal nú glens og gaman
við getum spjallað saman.
gáum hvað þú getur,
vinur, gettu hver ég er.
Verðlaun þér ég veiti
ef veistu hvað ég heiti.
vaðir þú í villu,
þetta vil ég segja þér.

Hér sérðu Línu langsokk
tralla hopp, tralla hei,
tralla hopp sa-sa.
já, líttu, það er ég.

Svo þú sérð minn apa,
minn sæta, fína, litla apa,
herrann Níels heitir,
já, hann heitir reyndar það.
Hérna höll mín gnæfir,
við himin töfraborg mín gnæfir,
fannstu annan fegri
eða frægðarmeiri stað?

Hér sérðu Línu langsokk…

Þú höll ei hefur slíka,
ég á hest og rottu líka.
Og kúffullan af krónum
einnig kistil á ég mér.
veri allir vinir,
velkomnir, einnig hinir.
nú lifað skal og leikið,
þá skal lífí tuskum hér.
hér sérðu Línu langsokk…

Lóan er komin

Lóan er komin að kveða burt snjóinn
kveða burt leiðindin, það getur hún.
Hún hefur sagt mér að senn komi Spóinn,
sólskin í dali og blómstur í tún.
Hún hefur sagt mér til syndanna minna,
ég sofi og mikið og vinni ekki hót.
Hún heur sagt mér að vaka og vinna
vonglaður taka nú sumrinu mót.

M

Magga litla og jólin hennar

Babbi segir, babbi segir:
„Bráðum koma dýrleg jól.“
Mamma segir, mamma segir:
„Magga fær þá nýjan kjól.“
Hæ, hæ, ég hlakka til,
hann að fá og gjafirnar.
Bjart ljós og barnaspil,
borða sætar lummurnar.

Babbi segir, babbi segir:
„Blessuð Magga ef stafar vel,
henni gef ég, henni gef ég
hörpudisk og gimburskel.“
Hæ, hæ, ég hlakka til
hugljúf eignast gullin mín.
Nú mig ég vanda vil,
verða góða telpan þín.

Mamma segir, mamma segir:
„Magga litla ef verður góð,
henni gef ég, henni gef ég
haus á snoturt brúðufljóð.“
Hæ, hæ, ég hlakka til,
hugnæm verður brúðan fín.
Hæ, hæ, ég hlakka til,
himnesk verða jólin mín.

Litli bróðir, litli bróðir
lúrir vært í ruggunni,
allir góðir, allir góðir
englar vaki hjá henni.
Hæ, hæ, ég hlakka til
honum sýna gullin fín;
bjart ljós og barnaspil,
brúðuna og fötin mín.

Alltaf kúrir, alltaf kúrir
einhvers staðar fram við þil
kisa’ og lúrir, kisa’ og lúrir.
Kann hún ekki að hlakka til?
Hún fær, það held ég þó,
harðfiskbita og mjólkurspón,
henni er það harla nóg,
hún er svoddan erkiflón.

Nú ég hátta, nú ég hátta
niður í, babbi, rúmið þitt,
ekkert þrátta, ekkert þrátta,
allt les „Faðirvorið“ mitt.
Bíaðu, mamma, mér,
mild og góð er höndin þín,
góða nótt gefi þér
Guð, sem býr til jólin mín.

Benedikt Gröndal

Maístjarnan

Ó, hve létt er þitt skóhljóð
ó, hve lengi ég beið þín.
Það er vorhret á glugga,
napur vindur sem hvín.
En ég veit eina stjörnu,
eina stjörnu sem skín.
Og nú loks ertu komin,
þú ert komin til mín.
Það eru erfiðir tímar,
það er atvinnuþref.
Ég hef ekkert að bjóða,
ekki ögn sem ég gef.
Nema von mína og líf mitt,
hvort ég vaki eða sef.
Þetta eitt sem þú gafst mér,
það er allt sem ég hef.
En í kvöld líkur vetri,
sérhvers vinnandi manns.
Og á morgun skýn maísól,
það er maísólin hans.
Það er maísólin okkar,
okkar einingarbands.
Fyrir þér ber ég fána,
þessa framtíðarlands.

Matarlagið

Allur matur á að fara
upp í munn og ofan´í maga.
Heyrið það, heyrið það!
Svo ekki gauli garnirnar.

Mér er kalt á tánum

Mér er kalt á tánum,
ég segi það satt.
Ég er skólaus og skjálfandi
og hef engan hatt.

Það snjóaði í morgun
það snjóaði í dag
ég er hreint ráðalaus,
en hvað um það.

Ég syng mína vísu
um snjóinn og mig.
Tra, la, la, la, la, la, la
um snjóinn og mig.

N

Nammilagið

Ef regnið væri úr bleiku bangsagúmmí
rosalegt fjör yrði þá.
Ég halla mér aftur með tunguna út
aa a a a a…(með tunguna úti)
rosalegt fjör yrði þá.

Ef sólin væri á bragðið eins og sleikjó
rosalegt fjör yrði þá.
Ég halla mér…

Ef snjórinn væri úr sykurpúða og poppi
rosalegt fjör yrði þá.
Ég halla mér…

Nú gaman gaman er

Nú gaman gaman er
í góðu veðri að leika sér
og fönnin hvít og hrein
og hvergi sést á stein
Ó já húrra, tra la
Svo bind ég skíði á fiman fót
og flýg um móa og grjót.
Húrra, húrra, húrra !

Nú blánar yfir berjamó

Nú blánar yfir berjamó
og börnin smá í mosató
og lautum leika sér.
Þau koma, koma kát og létt,
á kvikum fótum taka sprett
að tína, tína ber.

En heima situr amma ein,
að arni hvílir lúin bein,
og leikur bros á brá,
er koma þau með körfur inn
og kyssa ömmu á vangann sinn
og hlæja berjablá.

Nú er sumar

Nú er sumar, gleðjast gumar,
gaman er í dag.
Brosir veröld víða,
veðurlagsins blíða,
:,: eykur yndishag :,:
Látum spretta, sporin létta,
spræka fáka nú.
Eftir sitja engi,
örvar víf og drengi.
:,: Sumarskemmtun sú :,:

Nú er úti norðanvindur

Nú er úti norðanvindur,
nú er hvítur Esjutindur.(Súlutindur)
Ef ég ætti úti kindur,
mundi’ ég láta’ þær allar inn,
elsku besti vinur minn!
:,: Úmbarassa, úmbarassa, úmbarassassa :,:

Nú skal segja

Nú skal segja, nú skal segja
hvernig litlar telpur gera:
Vagga brúðu, vagga brúðu
-og svo snúa þær sér í hring.
Nú skal segja, nú skal segja
hvernig litlir drengir gera:
Sparka bolta, sparka bolta
-og svo snúa þeir sér í hring.
Nú skal segja, nú skal segja
hvernig ungar stúlkur gera:
Þær sig hneigja, þær sig hneigja
-og svo snúa þær sér í hring.
Nú skal segja, nú skal segja
hvernig ungir piltar gera:
Taka ofan, taka ofan
-og svo snúa þeir sér í hring.

Nú skal segja, nú skal segja
hvernig gamlar konur gera:
Prjóna sokka, prjóna sokka
-og svo snúa þær sér í hring.
Nú skal segja, nú skal segja
hvernig gamlir karlar gera:
Taka í nefið, taka í nefið
-og svo snúa þeir sér í hring.
AAAtsjúú!!!